Innlent

Skoðun á lestarsamgöngum vísað til umhverfisráðs

MYND/Pjetur

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að vísa tillögu minnihluta borgarstjórnar um að skoða möguleika á lestarsamgöngum í Reykjavík til umsagnar í umhverfis- og samgönguráði. Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, kemur fram að búist sé við að borgarráð afgreiði tillöguna eftir viku og í framhaldinu verður hún tekin fyrir í borgarstjórn.

Segir Dagur að ólíkt fyrstu viðbrögðum borgarstjóra á borgarstjórnarfundi á þriðjudag hafi tillagan hlotið jákvæð viðbrögð í borgaráði í dag. Fram kemur í greinargerð með tillögunni að margir af þátttakendum í nýafstaðinni hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrarinnar hafi teflt fram lestarsamgöngum sem framtíðarsamgöngumáta fyrir Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og tengslin við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Slík lausn væri í samræmi við stefnumótun um að Reykjavíkurborg byggi í auknum mæli á endurnýjanlegum orkugjöfum.

„Tilkoma Tónlistar- og ráðstefnuhússins við Austurhöfn, stóraukin fjöldi ferðamanna og fullkomin ráðstefnuaðstaða hlýtur enn fremur að kalla á að kostir þess að hraðlest gangi milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur verði skoðaðir. Áður en varir verður litið á slíkar lestar sem sjálfsagðan hluta af ferðalagi til að frá flugvöllum. Þá ber loks að geta þess að hugmyndir um nýja samgöngumiðstöð í Vatnsmýri eru í örri þróun. Þær hljóta og verða að taka mið af þessum framtíðar samgöngukostum," segir enn fremur í greinargerðinni.

Tillaga minnihlutans vegna málsins hljóðar annars svo: „Borgarráð felur umhverfis- og samgöngusviði að kanna hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur annars vegar og léttlestarkerfis sem nái til Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins í heild hins vegar. Við úttektina verði dregnir fram kostir og gallar, aðrir valkostir í umhverfisvænum samgöngum, fjárhagslegir þættir, umhverfis- og skipulagsþættir. Samráð verði haft við skipulagssvið Reykjavíkurborgar og leitað samstarfs við Orkuveitu Reykjavíkur, samgönguráðuneytið og samgönguráð um úttektina og/eða samráð við útfærslu og framkvæmd verkefnisins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×