Innlent

Reyna að komast yfir kreditkortanúmer

Lögreglan á Eskifirði varar við óprúttnum aðilum sem reynt hafa að svíkja fé af fólki með því að komast yfir kreditkortanúmer þess.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að hún hafi fengið upplýsingar um að hringt hafi verið í fólk og því tilkynnt á ensku að viðkomandi hafi unnið virði 75 prósenta í ferð til útlanda en það verði að greiða með greiðslukorti þau 25 prósent sem upp á vantar inn á ákveðinn reikning.

Við eftirgrennslan lögreglunnar á Eskifirði kom í ljós að þessi símtöl koma erlendis frá. Lögreglan telur einsýnt að hér sé verið að gera tilraun til þess að ná kreditkortanúmerum í því skyni að svíkja út fé og vill eindregið vara við því að fólk láti kortanúmerin sín í té.

Lögregla segir að aðferðin virðist nýleg en eins og flestir vita hefur áður verið varað við alls kyns fjársvikabréfum og -tölvupósti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×