Innlent

Engar ákvarðanir um að draga úr gjaldtöku á eldsneyti

MYND/GVA

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að engar ákvarðanir hafi teknar um minnka gjaldtöku á eldsneyti í ljósi hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu. Hann hefur efasemdir um að hækkandi olíuverð skili ríkissjóði auknum tekjum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, spurði ráðherra út í málið í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og sagði tekjur ríkisins aukast með hækkandi olíuverði. Spurði hann hvort ríkisstjórnin ætlaði að endurskoða álögur á eldsneyti í ljósi þessa en það kæmi almenningi vel.

Geir H. Haarde sagði stjórnvöld hafa reynt að draga úr notkun eldsneytis og í stað vörugjalds á eldsneyti hefði komið ákveðin krónutala á hvern lítra. Við þetta bættist virðisaukaskattur en deilt væri um það hvort hann skilaði ríkinu auknum tekjum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda væri þeirra skoðunar en ríkið ekki.

Þá sagði Geir að gjaldtaka af ökutækjum væri til endurskoðunar í fjármálaráðuneytinu og þar toguðust á ýmis sjónarmið og finna þyrfti jafnvægi í þessum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×