Innlent

Flugvél skráð í Bandaríkjunum og var á leið til Skotlands

Vél svipaðrar gerðar og um ræðir.
Vél svipaðrar gerðar og um ræðir.

Vélin sem Landhelgisgæslan leitar nú að fyrir austan land eftir að hún fór í sjóinn er skráð í Bandaríkjunum. Hún er af gerðinni Piper PA28 og var með einn mann innanborðs.

Vélin hvarf af ratsjá 19 mínútur yfir ellefu í morgun en þá var hún um 120 sjómílur suðaustur af landinu eða um 240 sjómílur suðaustur af Keflavík. Var þá Landhelgisgæslunni gert viðvart sem sent hefur bæði þyrlu, Fokker-flugvél sína og skip á vettvang að leita. Fokker-vélin er komin á staðinn en þyrlan er enn á leiðinni. Einnig hafa skip í nágrenninu verið beðin um að svipast um eftir vélinni.

Fram kemur í tilkynningu Flugstoða að vélin hafi farið frá Reykjavík klukkan hálftíu í morgun en hún var á leið til Wick á Skotlandi. Neyðarsendir flugvélarinnar fór í gang og nam gervihnöttur sendinn klukkan fjórar mínútur í tólf. Enn hefur flugvélin þó ekki fundist.

Aðstæður til leitar eru erfiðar, ölduhæð allt að 10 metrar og mikil ísing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×