Innlent

Erlendir ferðamenn óánægðastir með skyndibitastaðina

Erlendir ferðamenn sem hingað koma eru óánægðastir með skyndibitastaðina. Þetta kemur fram í nýrri könnun á vegum Ferðamálastofu.

Fram kemur á vef stofnarinnar að spurt hafi verið um tíu þætti, þar á meðal ferðir til og frá Íslandi, kaupferlið, veitinga- og skyndibitastaði, gistingu, afþreyingu og samgöngur. Gefnar voru einkunnir á kvarðanum núll til tíu og reyndust erlendir ferðamenn jákvæðastir gagnvart afþreyingunni en neikvæðastir gagnvart skyndibitastöðum, einkum hvað varðar fjölbreytni og gæði. Sem fyrr var verðlagið einnig sá þáttur sem fékk almennt lægstu einkunn.

Könnunin gefur einnig til kynna að Ísland laði til sín sem fyrr vel stæða einstaklinga í góðum störfum með áhuga á náttúru landsins. Þá eru vísbendingar um að menning og saga hafi aukin áhrif á ákvörðun um Íslandsferð.

Geysir og Þingvellir vinsælustu staðirnir

Dvalartími erlendra ferðamanna er með svipuðum hætti og fyrri kannanir sýna, 10 nætur að sumri og 5-6 nætur að vetri. Af 19 ferðamannastöðum vítt og breitt um landið sögðust langflestir erlendu gestanna hafa heimsótt Geysi, eða þrír af hverjum fjórum, og tveir af hverjum þremur heimsóttu Þingvelli.

Um var að ræða netkönnun sem gerð var á tímabilinu september til desember í fyrra, en netföngum var safnað meðal ferðamanna á brottfararsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Úrtakið var 3.208 manns og var svarhlutfallið 57,2 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×