Innlent

Stjórnsýsluúttekt á Þróunarfélaginu á lokastigi

MYND/Heiða

Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi vonast til að stjórnsýsluúttekt á á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar verði lokið í næstu viku en segir það þó ekki öruggt.

Greint var frá því í desember að stofnunin myndi taka út starfsemi Þróunarfélagsins í kjölfar harðrar gagnrýni á sölu eigna á gamla varnarliðssvæðinu. Áform voru uppi um að ljúka úttektinni um miðjan mánuðinn en að sögn Sigurðar er enn verið að klára nokkur atriði.

Meðal þess sem Ríkisendurskoðun var falið að taka afstöðu var bréf frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar Alþingis, sem sent var í lok janúar. Þar kom fram að rúmum fjórum milljörðum munaði á fyrri og núverandi áætlunum fjármálaráðuneytisins um afborganir vegna eigna sem seldar voru á gamla varnarliðssvæðinu á síðasta ári. Gert var ráð fyrir 7,5 milljörðum króna á þessu ári og því síðasta vegna sölu eigna í fyrra en nú lítur út fyrir að upphæðin verði um þrír milljarðar.

Fram kom í máli Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, á Vísi fyrr í mánuðinum að beðið yrði eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Þróunarfélaginu áður en skoðað yrði hvort endurskoða þyrfti forsendur fjárlaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×