Innlent

Forsætisráðherra: Breiðavíkurdrengirnir fá bætur

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að láta semja frumvarp um hugsanlegar bætur til þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík árin 1952-1979, að sögn Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Frumvarpið verður í samræmi við skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar sem kynnt var í dag. Geir vill ekki fullyrða um það hversu háar bæturnar verða eða hvort frumvarpið verði lagt fyrir á yfirstandandi þingi.

Þá segir Geir að ríkisstjórnin hafi ákveðið, í samráði við Breiðavíkurnefndina, að fylgja þessu máli eftir með athugun á sambærilegum heimilum sem voru rekin á þessu árabili. „En það verður gert með almennari hætti en hér var og mun væntanlega taka þrjú ár eða svo. Einnig mun félags- og tryggingamálaráðherra ganga í að leita af sér allan grun um að framkvæmd þessara mála eins og þau eru í dag sé með algjörlega eðlilegum hætti," segir Geir.

Geir segir enga leið að segja til um hversu háar bæturnar verði eða hvernig þær verði ákveðnar. „En ég vara menn við að gera sér allt of háar hugmyndir í því efni. Við munum fá sérfræðinga til að fara vel í saumana á því og rannsaka með hvaða hætti hægt er að standa að því," segir Geir. Geir segir þó að verði frumvarpið samþykkt verði bæturnar umfram þá skyldu sem núgildandi lög geri ráð fyrir.

Geir segir að frumvarpið verði annað hvort lagt fram af forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra en ekki sé hægt að segja til um hvenær það líti dagsins ljós. Málið sé flókið en búið sé að vinna ákveðna undirbúningsvinnu í því.


Tengdar fréttir

Annmarkar á ákvarðanatöku varðandi vistun á Breiðavík

Annmarkar voru á verklagi og málsmeðferð við töku ákvarðana í barnaverndarnefnd Reykjavíkur um vistun barna stóran hluta þess tímabils sem Breiðavík var starfandi, einkum á árunum 1952 til 1965-1966. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri skýrslu nefndar Breiðavíkurmálið sem kynnt var í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×