Innlent

Mótvægisaðgerðir ræddar að nýju vegna veiðistöðvunar

Árni Mathiesen fjármálaráðherra.
Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir ljóst að ríkisstjórnin muni ræða mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á aflamarki. Loðnuveiðar voru stöðvaðar á hádegi í gær, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins.

Árni segist þó bjartsýnn á að loðnan muni koma aftur upp á grunnin. „Ef hún á annað borð er í sjónum að þá kemur hún aftur upp á grunninn við Suðurlandið til þess að hrygna. Og aðalatriðið er þá að vera tilbúinn til þess að mæla og gefa út nýjan kvóta," segir Árni.

Hann segir að ef það gerist ekki þá sé um að ræða mikinn vanda á tilteknum stöðum. „Þá er í sumum tilfellum um sömu staðina að ræða og eru í vandræðum vegna þorskniðurskurðarins. Og við verðum að skoða þau mál þá í því ljósi, " segir Árni.

Árni segir nauðsynlegt að stunda góðar mælingar til þess að hægt sé að gefa út kvóta. Hins vegar sé svo mikil bræla á miðunum þessa dagana að skip Hafrannsóknarstofnunar hafi ekkert að gera á miðunum.

Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum segir að tekjutap sveitarfélagsins vegna stöðvunar á loðnuveiði sé tæpir 4 milljarðar og vill að látið verði af öllum handaflsaðgerðum í sjávarútvegi, fræðasvið sjávarútvegs verði styrkt, hafrannssóknir efldar, að hafnaraðstaða verði byggð upp í Eyjum og að hvalveiðar verði hafnar af fullum þunga. Árni segir að bæjarstjórinn hafi kynnt sér tillögurnar í gær og þeir muni ræða tillögurnar frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×