Innlent

Kópavogsbær styrkir Sunnuhlíð

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.

Bæjarráð Kópavogsbæjar hefur samþykkt tímabundna fjárveitingu til sjálfseignarstofnunarinnar Sunnuhlíðar, hjúkrunarheimilis aldraðra í Kópavogi. Þetta er gert sökum þess að ekki hefur tekist á síðastliðnum tveimur mánuðum að manna vaktir að fullu.

Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum kemur fram að styrknum sé ætlað að standa undir þeim umframkostnaði sem aðkeyptur vinnukraftur hefur í för með sér. Styrkurinn er veittur í 6 mánuði en fellur niður ef Sunnuhlíð nær að manna þær stöður sem starfsfólk vantar í.

Vegna manneklu hafa átta hjúkrunarrými ekki verið nýtt í Sunnuhlíð og við þær aðstæður fær hjúkrunarheimilið ekki meðgjöf frá ríkinu fyrir þau rými.

„Ekki þarf að tíunda þá þörf sem er almennt fyrir hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða og er þessi staða því verulega bagaleg og raunar óásættanleg," segir í tillögu þeirri sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær. Eina lausnin sé aðkeypt þjónusta hjúkrunarfræðinga. „Slíkt kallar á talsvert umframfjármagn sem Sunnuhlíð hefur ekki yfir að ráða."

Styrkurinn úr bæjarsjóði Kópavogs nemur samtals að hámarki 2,4 milljónum króna. Félagsmálastjóra hefur verið falið að ganga frá samkomulagi þar um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×