Innlent

Hefði átt að leggja konuna inn á spítalann

Plássleysi á spítalanum réði því ekki að kona sem liggur þungt haldin á gjörgæsludeild Landspítalans í kjölfar meðferðar á slysadeild hafi verið send heim heldur mat læknirinn sem annaðist hana að hún væri heimferðarfær. Þetta segir Már Kristjánsson, sviðstjóri lækninga á slysa og bráðamóttöku. Fréttastofa hefur engu að síður öryggar heimildir fyrir því að svo hafi verið.

Konan kom á bráðamóttöku vegna lyfjaeitrunar en talið er að hún hafi reynt sjálfsvíg. Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gærkvöldi þá var henni veitt svokölluð kolameðferð og send heim að henni lokinni.

Þegar heim var komið fór konan í hjartastopp þar sem lyfin höfðu komist í lungu hennar. Heimildarmenn fréttastofu innan veggja spítalans fullyrða að konan hafi verið send heim vegna þess að ekki hafi verið til sjúkrarúm fyrir hana sökum plássleysis. Þeir segja að eðlilegra hefði verið að konan hefði verið undir eftirliti innan spítalans lengur.

Már Kristjánsson, sviðstjóri Lækninga á slysa og bráðadeild sagði í samtali við fréttastofu í dag þetta ekki rétt. Plássleysi hafi ekki áhrif á ákvarðanir lækna. Már sagði það alltaf mat læknis hvort sjúklingar væri í ástandi til að fara heim. Hins vegar geti sú ákvörðun alltaf orkað tvímælis. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra sjúklinga og vildi ekki veita fréttastofu viðtal. Hann staðfesti þó að í umræddu tilviki hefði verið betra ef konan hefði dvalið lengur á spítalanum.

Þær heimildir fréttastofu fyrir því að það hafi verið plássleysið á spítalanum sem réði því að konan var ekki lögð inn heldur send heim eru afar traustar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×