Innlent

Verður að ákveða hvort hann sitji áfram fyrir mánudag

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mun að öllum líkindum kalla borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á sinn fund á morgun og tilkynna þeim ákvörðun sína um að sitja áfram sem oddviti flokksins. Geri hann það ekki munu borgarfulltrúar flokksins taka ákvörðun fyrir hann segir einn þeirrra.

Vilhjálmur hefur fundað stíft með sínum nánustu samstarfsmönnum innan borgarstjórnarflokksins í allan dag. Þá hefur hann verið í stöðugu sambandi við formann flokksins, Geir H. Haarde samkvæmt heimildum fréttastofu. Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gær þá hefur Vilhjálmur ákveðið að sitja áfram sem oddviti flokksins og taka við borgarstjórastólnum að ári. Þeir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem fréttastofa hefur rætt við í dag hafa ekki viljað tjá sig um málið. Þeir búast þó við og vona að Vilhjálmur kalli borgarfulltrúana á sinn fund á morgun og greini frá ákvörðun sinni. Ef hann gerir það ekki þá munu borgarfulltrúarnir taka fram fyrir hendurnar á honum og taka ákvörðun fyrir hann, að sögn eins þeirra.

Greint er frá því á fréttavefnum visir.is í dag að það sé Geir H. haarde formanni flokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanninum ekki að skapi að Vilhjálmur skuli ætla að halda áfram heldur vilji þau að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við af honum. Þetta hefur visir.is eftir heimildarmönnum sem sagðir eru úr innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Fréttastofa reyndi að ná tali af formanninum við opnun ljósmyndasýningar í dag. Honum fannst dónaskapir að vera spurður um þetta mál og svaraði ekki spurningum fréttamanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×