Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt þrjá pilta í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa verið valdir að sinubruna við Hvaleyrarvatn í lok apríl á þessu ári.
Samkvæmt ákæru varð þeim gefið að sök stórfelld eignaspjöll og brot gegn lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi en alls brunnu 7,7 hektarar lands í eldsvoðanum, þar af yfir sjö þúsund tré. Flest trjánna voru undir metra á hæð en sum voru þó allt upp í þrír og hálfur metri.
Piltarnir þrír voru handteknir í bíl skammt frá vettvangi eftir að þeir höfðu kveikt eldana um nótt og reyndist sá sem var undir stýri undir áhrifum fíkniefna. Piltarnir játuðu á sig brotin en tveir þeirra höfðu áður komist í kast við lögin.
Var ákveðið að skilorðsbinda refsinguna yfir mönnunum því þeir voru allir undir tvítugu. Ökumaður bílsins var auk þess sektaður um 70 þúsund krónur fyrir fíkniefnaaksturinn.