Enski boltinn

Eigendum Liverpool settir afarkostir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skýr skilaboð frá stuðningsmönnum Liverpool.
Skýr skilaboð frá stuðningsmönnum Liverpool. Nordic Photos / AFP

Fjárfestingarfyrirtækið DIC frá Dubai hefur gefið eigendum Liverpool, Tom Hicks og George Gillett, sólarhring til að ganga að tilboði þeirra í klúbbinn.

DIC, sem er rekið af ríkisstjórn Dubai, hefur staðfest að félagið hafi átt í viðræðum um að kaupa Liverpool af Bandaríkjamönnunum sem hafa verið einkar óvinsælir hjá stuðningsmönnum liðsins.

Eftir því sem heimildir fréttastofu BBC herma hljómar tilboðið upp á 52,7 milljarða króna eða 400 milljónir punda.

„Það er ekkert leyndarmál að við höfum átt í viðræðum við núverandi eigendur," sagði framkvæmdarstjóri DIC, Sameer al-Ansari. „En það hefur ekki verið auðvelt því þeir eru í einhverjum draumaheimi þegar kemur að verðmati."

Tom Hicks sagði í síðasta mánuði að hann ætlaði ekki að selja sinn hlut í félaginu og neitaði því að eiga í viðræðum við DIC. Hann sagði einnig að Gillett gæti ekki selt sinn hlut án síns samþykkis.

Þeir hafa þó verið óvinsælir hjá stuðningsmönnum félagsins vegna samskipta þeirra við Rafael Benitez, knattspyrnustjóra liðsins, og fjármálastjórn félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×