Viðskipti innlent

Gengi SPRON aldrei lægra

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.

Gengi hlutabréfa í SPRON hefur fallið um rúm fjögur prósent frá því viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag. Gengið stendur í 5,0 krónum á hlut og hefur það aldrei verið lægra. Einungis eitt félag hefur hækkað á sama tíma, Eik banki, sem hefur farið upp um 0,24 prósent.

Þá hefur gengi Straums fallið um 3,2 prósent, Færeyjabanki um 2,82 prósent og Exista um 2,62 prósent. Flest önnur fyrirtæki í Kauphöllinni hafa fallið um allt að tvö prósent.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,24 prósent það sem af er dags og stendur vísitalan í 4.749. Hún hefur ekki verið lægri síðan um miðjan nóvember árið 2005.

Lækkunin í Kauphöllinni er í samræmi við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag og í gær. Þannig féllu vísitölur í Bandaríkjunum í gær vegna ótta fjárfesta um áframhaldandi lausafjárþurrð og þrengingar á bandarískum fasteignamarkaði samfara auknum afskriftum þarlendra fjármálafyrirtækja.

Þá féll Nikkei-vísitalan í Japan um 3,3 prósent. Evrópskar vísitölur hafa ekki farið varhluta af þróuninni en FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 1 prósent, hin þýska Dax-vísitalan og Cac-40 vísitalan í Frakklandi um 1,1 prósent.

Talsverð lækkun er sömuleiðis á Norðurlöndunum en C20-vísitalan í Danmörku hefur lækkað um 1,5 prósent frá upphafi viðskiptadagsins. Þetta er sama lækkun og á samnorrænu hlutabréfavísitölunni OMX40.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×