Erlent

Forstjórar gripnir við vændiskaup

Sheraton hótelið í Stokkhólmi þykir vænlegur veiðistaður.
Sheraton hótelið í Stokkhólmi þykir vænlegur veiðistaður.

Óli Tynes skrifar frá Svíþjóð

Það er bannað með lögum að kaupa vændi í Svíþjóð. Lögin eru þannig að það eru kaupendurnir sem er refsað. Vændiskaupendur eru kallaðir þorskarnir hér í Svíþjóð. Og það þykir hin mesta skömm að vera afhjúpaður sem þorskur.

Sænska lögreglan er nokkuð iðin við þorskveiðarnar og rennir gjarnan fyrir þá á lúxushótelum landsins. Undanfarnar vikur hefur hún gripið þar tvo þekkta forstjóra úr atvinnulífinu. Annar þeirra var forstjóri hjá opinberri stofnun. Sá þriðji var svo gripinn í íbúð vændiskonu.

Það er dálítið kostulegt að vændiskonur meiga auglýsa vöru sína á netinu, við það eru ekki gerðar neinar athugasemdir. Og það gerir lögreglunni náttúrlega auðveldara að vinna sín störf. Löggurnar þurfa aðeins að vakta íbúðir sem konurnar búa í. Og banka svo uppá fimm mínútum eftir að karlmaður fer þar inn. Þá er enn einn þorskurinn kominn á land.

Og það er dýrt spaug að vera landað. Forstjórinn sem var veiddur í íbúð vændiskonu var dæmdur í fimmtíu dagsektir upp á 500 sænskar krónur. Það gerir um kvart milljón íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×