Erlent

Hugsa um hvort fiskur sem borðaður er sé í útrýmingarhættu

Óli Tynes skrifar frá Svíþjóð skrifar

Íslensk stjórnvöld hafa töluverðar áhyggjur af tilraunum umhverfissinna til þess reyna að fá fólk til þess að hætta að kaupa fisk sem þeir segja sjálfir að sé í útrýmingarhættu.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur bent á að ekki séu gerð nein skil á milli fiskstofna hvar sem þeir eru í hafinu. Þanning séu þorskstofnar í hættu á vissum hafsvæðum en ekki öðrum. Umhverfissinnar eins og Grænfriðungar geri þarna engin skil. Þeir lýsi þorskinn í heild í hættu.

Sænska blaðið Kvöldpósturinn gerði könnun meðal lesenda sinna og leyfði þeim að fylgja atkvæði sínu eftir með athugasemd. Spurt var: „Hugsar þú um hvort fiskurinn sem þú borðar sé í útrýmingarhættu."

Niðurstaðan var sú að 47 prósent sögðu já en 39 prósent söðgu nei. Og 14 prósent sögðu stundum.

Í athugasemdum mátti meðal annars lesa þetta: „Allir hljóta að vita að við erum að útrýma þorskinum. Samt halda verslanir áfram að selja hann. Og við höldum áfram að kaupa."

Önnur athugasemd var á þessa leið: „Vísindamenn segja að þorstofninn sé í hættu. Sjómenn segja að það hafi aldrei verið meira af honum. Hverju eigum við að trúa?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×