Viðskipti erlent

Visa skráð á markað í dag

Ef allt gengur eftir verður kortafyrirtækið Visa skráð á markað í Bandaríkjunum í dag. Tæpir átján milljarðar bandaríkjadalir, jafnvirði 1.384 milljarðar króna, söfnuðust í almennu hlutafjárútboði fyrir skráningu félagsins á markað og hefur viðlíka tala aldrei áður sést fyrir skráningu nokkurs félags í Bandaríkjunum.

Af fjárhæðinni sem safnaðist í útboðinu fá nokkrir bankar sem eiga kortafyrirtækið 10,2 milljarða dala, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Seld voru 406 milljón hlutir á 44 dali. Þetta er yfir væntingum enda reiknað með að bréfin færu á bilinu 37 til 42 dali á hlut.

Helsti samkeppnisaðili Visa, Mastercard, var skráð á markað fyrir rétt tæpum tveimur árum og söfnuðust 2,4 milljarðar dala í því hlutafjárútboði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×