Innlent

Halda ólöglegt bingó á morgun

Matthías Ásgeirsson.
Matthías Ásgeirsson.

Félagið Vantrú stendur fyrir ólöglegu bingói á Austurvelli klukkan 13:00 á föstudeginum langa. Í tilkynningu frá Vantrú segir að allir séu velkomnir. Það sé engin ástæða til að láta sér leiðast eða vera með samviskubit á þessum degi frekar en öðrum, þrátt fyrir að úrelt helgidagalöggjöf banni bingó á þessum degi.

Samkvæmt lögum um helgidagafrið eru skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að bannaðar á föstudaginn langa. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.

Matthías Ásgeirsson, formaður Vantrúar, óttast ekki viðbrögð lögreglunnar við bingóhaldinu. „Þeir hafa engan áhuga á þessu. Við héldum bingó í fyrra og þeir voru ekkert að skipta sér að þessu," sagði Matthías í samtali við Vísi. Matthías sagði að markmið Vantrúar væri að halda jákvæð og saklaus mótmæli án þess að meiða nokkurn. „Við erum heldur ekki að reyna að stuða trúmenn," segir Matthías.

Þátttaka í bingóinu er ókeypis og boðið verður upp á kakó og kleinur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×