Erlent

Synjað um líknardráp - fannst látin

Óli Tynes skrifar

Chantal Sebire var afskræmd og sárlega kvalin af sjaldgæfu krabbameinsæxli í nefgöngum. Hún var 52 ára gömul.

Hún fór fram á að hún fengi aðstoð lækna við að deyja sársaukalaust. Dómstóll í Dijon synjaði þeirri beiðni síðastliðinn mánudag.

Í úrskurðinum sagði meðal annars að það væri bæði brot á læknalögum og lögum sem banna líknardráp. Í gær fannst Chantal Sebire svo látin á heimili sínu. Dánarorsök hefur ekki verið gefin upp.

Læknar hennar höfðu sagt henni að ef hún hætti að taka lyf sín gegn æxlinu myndi hún falla í dá og látast síðan. Ekki er ljóst hvort það hefði gerst á svona skömmum tíma.

Líknardráp eru leyfð í fjórum Evrópuríkjum. Það eru Holland, Belgía, Sviss og Luxembourg. Í Frakklandi hafa dómstólar hinsvegar oft synjað um leyfi til slíks.

Kaþóska kirkjan er mjög á móti líknardrápum. Hún segir að helgi mannlegs lífs sé öllu öðru æðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×