Erlent

Philip prins lét ekki myrða Díönu

Engin sönnunargögn benda til þess að Philip drottningarmaður hafi fyrirskipað að Díana prinsessa og Dodi Fayed ástmaður hennar yrðu myrt. Þetta kom fram í samantekt Scott Baker lávarðs sem fer fyrir réttarrannsókninni á dauða prinsessunnar í London.

Haft er eftir Baker á Sky-fréttastofunni að ekkert hafi komið fram sem styðji að leyniþjónustan í Bretlandi eða í öðrum löndum hafi staðið á bak við bílslysið í París.

Baker bætti við að margar af samsæriskenningum Mohamed al Fayed um slysið væru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Lögmaður hans væri meira að segja hættur að elta ólar við þær. Samsæriskenninganar og orðrómur hefði verið rannsakaðar í smáatriðum. „Það er enginn vafi á því að þeir sem trúa morðkenningum muni halda áfram að hafa þá trú þrátt fyrir niðurstöðu kviðdómsins," sagði Baker.

Ursula Errington, fréttamaður Sky á staðnum, sagði að kviðdómur gæti komist að fimm mismunandi niðurstöðum. Þar á meðal að um morð hefði verið að ræða, áreksturinn hefði verið slys, áreiti bílanna sem eltu væri um að kenna eða að áreksturinn mætti rekja til viðbragða ökumannsins.

Meira en 250 manns báru vitni við rannsóknina á sex mánaða tímabili. Sumir í gegnum gervihnött frá öðrum löndum og aðrir, eins og í tilfelli leyniþjónustunnar, komu fram nafnlaust í lokuðu réttarhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×