Enski boltinn

Capello sætir rannsókn ákæruyfirvalda á Ítalíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / AFP

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, mun sæta rannsókn af hálfu ríkissaksóknara Ítalíu þar sem hann er talinn hafa haldið aftur upplýsingum er hann bar vitni fyrir dómi.

Sex menn hafa verið ákærðir í umræddu dómsmáli fyrir að stuðla að ósamkeppnishæfu umhverfi með hótunum eða ofbeldi en þeir unnu fyrir umboðsskrifstofuna Gea World. Hún hafði marga ítalska knattspyrnumenn og þjálfara á sínum snærum.

Saksóknarinn mun ætla að byggja mál gegn Capello og Antonio Giraudo, fyrrum stjórnarmanni Juventus. Capello var áður þjálfari Juventus og Roma í heimalandi sínu.

Meðal sakborninga í málinu eru Luciano Moggi, fyrrum framkvæmdarstjóri Juventus, og Davide Lippi, sonur Marcello Lippi fyrrum landsliðsþjálfara Ítalíu.

Capello sagði er hann bar vitni að hann skipti sér aldrei af samningamálum leikmanna er hann var stjóri á Ítalíu.

„Ég skipti mér aðeins af þeim málum sem sneri að þjálfun liðanna," sagði Capello.

Hann sagði hins vegar í viðtali við Corriero dello Sport á sínum tíma að Geo væri að verða einveldi á sínum vettvangi á Ítalíu. „Ég sagði þetta því ég taldi að það væri gott fyrir Roma," sagði Capello. „Ég vissi um tilvist Gea og að margir leikmenn væru að dragast að fyrirtækinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×