Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch staðfesti í gær lánshæfiseinkunnir Staums. Lánshæfiseinkunn fjárfestingarbankans er BBB- og langtímahorfur stöðugar. Horfur Straums eru þær einu af íslensku bönkunum sem eru stöðugar, líkt og greiningardeild Glitnis bendir á.
Greiningardeildin bendir á það í Morgunkorni sínu í dag, að Fitch hafi breytt horfum stærstu viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis úr stöðugum í neikvæðar nú fyrr í vikunni. Í kjölfarið var ríkissjóður einnig settur á neikvæðar horfur.
„Í rökstuðningi Fitch segir að staðfesting á lánshæfi Straums endurskoði þá skoðun að þrátt fyrir umrót á fjármagnsmörkuðum og neikvæð viðhorf markaðsaðila gagnvart íslenskum aðilum þá geri sterk lausafjárstaða Straums og viðráðanleg endurfjármögnunarþörf það að verkum að Straumur hafi sterkari brynju gagnvart neikvæðri umræðu og erfiðum markaðsaðstæðum heldur en stærri bankarnir sem hafa verið meira í umræðunni," segir í Morgunkorninu og bent á að Fitch telji straum síður viðkvæman fyrir þeim blikum sem séu á lofti vegna aukinnar hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins
Bankinn er hins vegar ekki algjörlega ónæmur fyrir ytra umhverfi, segir Glitnir og hefur eftir Fitch að að vaxta- og þóknanatekjur Straums verði að einhverju leyti fyrir neikvæðum áhrifum á þessu ári. Megi búast við að stormurinn á alþjóðlegum fjármálamarkaði hafi einhver áhrif á afkomu og starfsemi bankans á árinu.