Ingibjörg sagði einnig að málið væri flókið þar sem erfitt væri að finna óháða aðila til þess að leysa málið. Geir bætti við að íslensk stjórnvöld væru hins vegar öll af vilja gerð til þess að leysa deiluna. Geir sagði ljóst að Íslendingar yrðu að fara að fá skýr svör varðandi IMF-aðstoðina en hann vildi ekki leggja út af því hvað gerðist fengist hún ekki í gegn.
Varðandi forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun þar sem haft var eftir fulltrúa Sviss í framkvæmdastjórn IMF að erindi Íslands hefði ekki borist sjóðnum sagði Geir það ekki rétt. Hann hefði kannað það í morgun og fengið staðfest að bréfið hefði verið sent 3. nóvember. Stjórnarmenn í sjóðnum fái erindið hins vegar ekki fyrr en boðað hafi verið formlega til fundarins.
Þá var Geir spurður út í aðgerðir ríkisins til þess að afla lána annars staðar frá, í Rússlandi og Kína. Þau mál eru enn í vinnslu að sögn Geirs og vildi hann ekki tjá sig nánar um það.