Innlent

Ferðamálastofa fundar í útlöndum út af kreppu

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.

Í vikunni hefst fundarherferð að frumkvæði Ferðmálastofu á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu og verða fundir m.a. haldnir í París, Frankfurt og Kaupmannahöfn.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir í tilkynningu að ástæðan á bak við ferðina sé að Ferðamálastofu hafi að undanförnu borist fregnir af tilhæfulausum fréttum um stöðu þjónustugreina á Íslandi. Auk þess hafi erlendir söluaðilar haft samband við íslenska ferðaþjónustuaðila og lýst yfir áhyggjum sínum af sölumöguleikum á ferðum til Íslands.

,,Meginmarkmið með ferðinni er að hitta söluaðila Íslands á erlendri grundu, ræða stöðu mála á Íslandi, fullvissa um að óstaðfestar fregnir af vandræðum séu ekki réttar og hvetja til dáða í sölu á Íslandsferðum. Einnig hafa verið skipulagðir blaðamannafundir í hverju landi," segir í tilkynningunni.

Í ferðinni verður farið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Þýskalands og Frakklands. Að sinni var ákveðið að bíða með að kynna stöðu mála í Hollandi og Bretlandi.

Fundaferðin hefst í Stokkhólmi fimmtudaginn 13. nóvember og er hún samstarfsverkefni Ferðamálastofu, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×