Íslenskar eignir fjármálafyrirtækisins Milestone verða frá og með þessu ári færðar undir sænsku fjármálasamstæðuna Invik, dótturfélag Milestone. „Eftir eignafærsluna á árinu 2008 munu öll fyrirtæki Milestone verða dótturfélög Invik, þar með talin íslensku fjármálafyrirtækin Sjóvá, Askar Capital og Avant,“ segir í tilkynningu vegna ársuppgjörs fyrirtækisins.
Tilfærslan er samkvæmt heimildum blaðsins hluti af straumlínulögun fyrirtækjastarfsemi Milestone og sóknar inn á norrænan fjármálamarkað. „Meira en 75 prósent af eignum Milestone eru á erlendri grundu og það liggur fyrir að framtíðarvöxtur fyrirtækisins verður á Norðurlöndum. Aukin áhersla á uppbyggingu fjármálafyrirtækja okkar utan Íslands er rökrétt skref fyrir félagið,“ er haft eftir Guðmundi Ólasyni, forstjóra Milestone, í tilkynningu félagsins.