Innlent

Samfylkingin biður fólk að kjósa Röskvu

Breki Logason skrifar
Dagný Ósk Aradóttir formaður Stúdentaráðs.
Dagný Ósk Aradóttir formaður Stúdentaráðs.

„Þetta er hið versta mál og kemur alls ekki frá okkur. Ég var mjög hissa þegar ég sá þetta og við erum búin að biðja þá um að taka þetta út," segir Dagný Ósk Aradóttir Röskvuliði og formaður Stúdentaráðs.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar er ákall frá Röskvu, félagshyggju framboði í Háskóla Íslands. Þar kemur fram að Röskva kalli eftir öllum jafnaðarmönnum sem skráðir eru í Háskóla Íslands um að leggja sér lið í kosningum til Stúdentaráðs og Háskólaráðs. En kosningar standa yfir í Háskólanum.

„Það getur vel verið að Samfylkingin sé að biðla til félagshyggjufólks að kjósa okkur en þetta lítur út eins og við höfum sett þetta þarna inn, sem er ekki rétt," segir Dagný Ósk og áréttar að Röskva sé ekki ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, það séu samtök sem heiti Ungir jafnaðarmenn.

Röskva eru samtök félagshyggjufólks í Háskólanum og segir Dagný að það geti vel verið að Samfylkingin vilji að þeim gangi vel. „Við erum samt ekki í neinum samskiptum við Samfylkinguna og erum ekki að biðja þau um að lobbýa fyrir okkur á þennan hátt, mér finnst þetta bara svolítið fyndið," segir Dagný sem hafði ekki hugmynd um hver hefði sett umrædda frétt inn á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Mörður Árnason Samfylkingarmaður er ritstjóri heimasíðunnar og sagðist í samtali við Vísi ekki vita hver hefði sett umrædda frétt inn á vefinn.

Fréttina á vef Samfylkingarinnar má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×