Formúla 1

Kovalainen á ráspól á Silverstone

Finnski ökuþórinn Heikki Kovalainen verður á ráspól í breska kappakstrinum á Silverstone brautinni á morgun eftir að hafa náð besta tímanum í tímatökum í dag.

McLaren-ökumaðurinn náði frábærum hring og náði nærri 0,7 sekúndum betri tíma en Mark Webber á Red Bull sem náði öðrum besta tímanum. Heimsmeistarinn Kimi Raikkönen á Ferrari varð þriðji og Lewis Hamilton, félagi Kovalainen hjá McLaren, náði fjórða besta tímanum.

Nick Heidfeld hjá BMW náði fimmta besta tímanum og Fernando Alonso á Renault þeim sjötta besta.

Nokkur munur var á tíma ökumanna og er það talið bera vott um að þeir hafi ekið með mismikið eldsneyti í bílum sínum, en búist er við vætu í keppninni á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×