Íslenski boltinn

Leikir kvöldsins: FH vann upp þriggja marka forskot

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Toppliðin tvö í Landsbankadeild karla gerðu bæði jafntefli í sínum leikjum í kvöld eftir að hafa lent undir. Valsmenn unnu hins vegar góðan sigur á Blikum og eru nú þremur stigum á eftir FH og fimm á eftir Keflavík.

HK-ingar unnu í kvöld sinn annan sigur í röð en um leið aðeins þriðja sigurinn þeirra í allt sumar. Sigurinn í kvöld var gríðarlega dýrmætur þar sem liðið lagði ÍA í miklum botnslag, 2-1.

Þar sem Þróttur og Fylkir gerðu markalaust jafntefli munar einungis fjórum stigum á HK, sem er með tólf stig, og Fylkismönnum. Þróttur er svo þremur stigum fyrir ofan Fylki.

Útlitið er hins vegar orðið enn svartara fyrir Skagamenn sem eru á botni deildarinnar með átta stig, öðrum átta stigum á eftir Fylkismönnum. Það eru þó fimmtán stig eftir í pottinum og allt getur enn gerst.

FH bjargaði stigi gegn Fjölni í Grafarvoginum eftir að hafa lent 3-0 undir. KR komst einnig yfir gegn Keflavík en þeir síðarnefndu skoruðu næstu tvö mörk í leiknum. KR náði hins vegar að jafna metin með marki Guðjóns Baldvinssonar í uppbótartíma.

Þá vann Fram 2-0 sigur á Grindavík og kom sér þannig í fjórða sæti deildarinnar en liðið er með 28 stig, fjórum stigum á eftir Val.

Hægt var að fylgjast með öllum leikjunum samtímis á Miðstöð Boltavaktarinnar. Slóðin á hana er visir.is/boltavakt. Það má lesa nánar um gang leikjanna í kvöld með því að smella á hvern einstakan leik.

Úrslit kvöldsins:

Fjölnir - FH 3-3

Grindavík - Fram 0-2

KR - Keflavík 2-2

Þróttur - Fylkir 0-0

ÍA - HK 1-2

Breiðablik - Valur 0-2






Fleiri fréttir

Sjá meira


×