Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, segist ekki hafa haft hugmynd um að Baugur hafi verið með Miðfjarðará á leigu þegar hann fór þangað í laxveiði í ágúst í fyrra. „Ég hef aldrei farið í boði neins fyrirtækis í veiði, aldrei," segir Guðlaugur í samtali við Vísi. Hann segir að Haukur Leósson, þáverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar, hafi boðið sér í ferðina. „Ég gerði síðan upp við Hauk," segir Guðlaugur Þór.
Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi varaformaður stjórnar Orkuveitunnar og REI, var í sömu ferð. Hann segist heldur ekki hafa vitað af því að Baugur hafi verið leigutaki árinnar þessa helgi. Haukur Leósson hafi boðið honum og konu sinni í ferðina með skömmum fyrirvara. Björn Ingi segir að Haukur hafi greitt fyrir sig ferðina. Þess má geta að þriggja daga veiðiferð í Miðfjarðará kostar um 550 þúsund krónur með uppihaldi.
Haukur Leósson segir í samtali við Vísi að hann hafi boðið Guðlaugi, Birni Inga og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni í veiðiferðina. Hann segir að Stefán H. Hilmarsson, fjármálastjóri Baugs, sé gamall samstarfsmaður sinn og að þeir séu í hópi fyrrverandi vinnufélaga sem fari árlega í veiði saman. Að sögn Hauks losnuðu nokkur sæti í ferðinni og því hafi Haukur boðið Guðlaugi, Vilhjálmi og Birni Inga með.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson staðfestir að hann hafi þegið boð Hauks Leóssonar í ferðina. Hann segir þá hafa verið vini í nokkra áratugi og þessvegna hafi hann ákveðið að þiggja boðið. Aðspurður hvort málefni REI og GGE hafi verið rædd í ferðinni segir hann svo ekki vera.