Viðskipti erlent

Félag Existu kaupir skókeðju á eitt pund

Ein af verslunum JJB Sports.
Ein af verslunum JJB Sports.

Stjórnendur bresku íþróttavöruverslunarinnar JJB Sports greindu frá því í gærkvöldi að þeir hefðu keypt bresku skóverslunina Qube Footwear. Kaupverð nemur litlu einu bresku pundi, jafnvirði tæpra 144 íslenskra króna.

Seljandi verslunarinnar er fjárfestingarfélagið West Coast Capital, félag Tom Hunters, ríkasta manns Skotlands. Hunter er jafnframt stór hluthafi í eignarhaldsfélaginu Jötunn Holding sem situr á rúmum 4,8 prósenta hlut í Glitni.

Breskir fjölmiðlar hafa eftir Hunter í dag að salan sé liður í uppstokkun á eignasafni West Coast Capital.

Qube hefur gert skurk í rekstrinum og lokað nokkrum fjölda verslana. Eftir standa 22 víðs vegar um Bretland. Félagið tapaði 6,1 milljón punda, jafnvirði 876,5 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári.

Exista keypti 29 prósenta hlut í JJB Sports á síðasta ári í félagi við Chris Ronnie, forstjóra verslunarinnar. Hvor um sig á um 14 prósenta hlut í versluninni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×