Viðskipti innlent

Afleit staða Giftar

Óvíst er að eignir fjárfestingafélagsins Giftar dugi fyrir skuldum.

Samkvæmt skýrslu stjórnar Giftar 15. júní í fyrra, námu heildarskuldir og skuldbindingar félagsins ríflega 30 milljörðum króna.

Þá námu eignirnar tæpum 60 milljörðum.

Helstu eignir Giftar í skráðum félögum voru fólgnar í hlutum í Kaupþingi og Existu. Kaupþingshluturinn er horfinn og Existuhluturinn er nú 2,8 milljarða króna virði. Þá á félagið hlut í Icelandair, á móti Finni Ingólfssyni. Ætla má að virði hlutarins sé nú um milljarður. Gift átti einnig hluti í Landsbanka og Glitni. Þá átti félagið, þegar síðast fréttist, hlut í Straumi Burðarási. Eignir Giftar í óskráðum félögum námu fyrir ári, um einum milljarði króna að nafnvirði.

Markaðurinn hefur um nokkurra vikna skeið reynt að ná sambandi við Kristinn Hallgrímsson, formann skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, Sigurjón Rúnar Rafnsson, stjórnarformann Giftar og Benedikt Sigurðsson framkvæmdastjóra Eignarhaldsfélagsins. Það hefur með öllu reynst árangurslaust, að því frátöldu að Benedikt sagðist engar upplýsingar getað gefið.

Á fimmta tug þúsunda manna átti réttindi í Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum og átti rétt á hlutum í Gift. Finnur Ingólfsson, stjórnarformaður Samvinnusjóðsins, stærsta einstaka hluthafanum, sagðist ekkert vita um stöðu mála. Hann biði eins og aðrir hluthafar.

Menn sem Markaðurinn hefur rætt við segja augljóst hvert stefni. Einn tók jafnvel svo til orða að aðeins kistulagningin væri eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×