Valur vann Fram 4-1 í úrslitum Lengjubikarsins í Kórnum í kvöld. Valsmenn voru mun betri í leiknum og vel að sigrinum komnir.
Dennis Bo Mortensen skoraði tvö af mörkum Vals en hin gerðu þeir Atli Sveinn Þórarinsson og Pálmi Rafn Pálmason. Hjálmar Þórarinsson skoraði mark Fram úr vítaspyrnu.
Leikurinn var í beinni textalýsingu á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa um gang mála í tenglinum hér að neðan.
Boltavaktin: Fram - Valur
Fram lagði Breiðablik í undanúrslitum í æsispennandi viðureign. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma en fjögur mörk í framlengingunni. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit og eftir hana stóðu Framarar uppi sem sigurvegarar.
Fram komst einnig í úrslit Reykjavíkurmótsins í lok febrúar en töpuðu þá fyrir ÍR, 1-0.
Valsmenn unnu góðan sigur á ÍA í hinum undanúrslitaleiknum, 5-2. Þeir unnu Keflvíkinga í fjórðungsúrslitum en Fram vann 2-1 sigur á FH á því stigi keppninnar.