Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, fór út bakdyramegin eftir að borgarráðsfundi lauk og ræddi því ekki við fjölmiðlamenn sem biðu hans utan fundarherbergis. Þetta kom í ljós þegar herbergið var opnað. Sömu leið virðast Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvarsson hafa farið.
Vilhjálmur segir það sjálfur alrangt að hann hafi farið út bakdyramegin heldur hafi hann setið ásamt þremur öðrum borgarfulltrúum í hliðarherbergi eftir að fundi borgarráðs lauk og eftir það hafi hann farið upp á skrifstofu sína og þaðan út um aðaldyrnar.
Dagur var inntur eftir stöðu mála í borginni eftir borgarráðsfundinn. Hann minnti á að hann hefði sagt við myndun núverandi meirihluta að kjósa ætti í borginni og sagðist Dagur enn þeirrar skoðunar. Enn fremur sagði hann um stöðuna í borginni að annaðhvort væri þetta hefðbundið klúður hjá sjálfstæðismönnum eða þá að þeir væru að beita klækjabrögðum. Stjórnarkreppa hefði verið í borginni frá því að sjálfstæðismenn og F-listi tóku við.
Aðspurður um þá hugmynd að Ólafur dragi sig út úr borgarstjórn og Margrét Sverrisdóttir komi inn í stað hans og að myndaður verði nýr Tjarnarkvartett sagði Dagur að Ólafur yrði sjálfur að ákveða hvort hann hyrfi á braut.
Athygli vakti að hvorki Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, né Ólafur F. Magnússon borgarstjóri sátu fund borgarráðs.