Viðskipti innlent

Wood & Company eykur hlutdeild sína utan Tékklands

William Fall, forstjóri Straums, ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni fjárfestingarbankans.
William Fall, forstjóri Straums, ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni fjárfestingarbankans. Mynd/Anton
Tékkneski fjárfestingabankinn Wood & Company, sem Straum-Burðarás á helmingshlut í, jók í ágústmánuði hlutdeild sína í miðlun verðbréfa í kauphöllum utan Tékklands. Hlutdeild Wood í viðskiptum í kauphöllinni í Varsjá í Póllandi nam 6,4 prósentum í síðasta mánuði og hefur aldrei verið hærri. Wood var sem fyrr stærsti erlendi hlutabréfamiðlarinn í kauphöllinni í Varsjá en sá sjöundi stærsti að innlendum miðlurum meðtöldum, að því er segir í tilkynningu frá Straumi. Þá jókst hlutdeild Wood í kauphöllinni í Búdapest umtalsvert og nam hún 8,7 prósentum af veltu. Wood var því fjórði umsvifamesti miðlarinn í kauphöllinni í Búdapest. Wood & Company er stærsti einstaki verðbréfamiðlarinn í kauphöllinni í Prag í Tékklandi og á auk þess aðild að kauphöllunum í Búkarest í Rúmeníu , Búdapest í Ungverjandli, Frankfurt í Þýskalandi, Ljubljana í Slóveníu, Sófíu í Búlgaríu, Vín í Austurríki og Varsjá í Póllandi, líkt og segir í tilkynningunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×