Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari: Vill yfirheyra Al Thani

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur sakskóknari, vill yfirheyra Sjeik Al Thani vegna kaupa hans á hlutabréfum í Kaupþingi. Grunur leikur á að kaupin hafi verið sýndarviðskipti.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var helmingur af 25 milljarða króna láni Kaupþings til sjeiksins fyrir bréfunum tryggður með persónulegri ábyrgð sem sjeikinn var síðar losaður undan. Það var gert með því að láni til annars félags í hans eigu sem var án trygginga var breytt í íslenskar krónur á mun hærra gengi. Sá hluti lánsins sem var með ábyrgð var því greiddur upp með andvirði láns sem engar tryggingar voru fyrir. Það er þessi snúningur sem ákæruvaldið telur vera auðgunarbrot. Þá eru einnig grunsemdir um markaðsmisnotkun, þ.e. að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til að hafa að hafa áhrif á gengi hlutabréfanna í Kaupþingi.

Sjeikinn er bróðir emírsins af Katar og hefur verið í forsvari fyrir fjölskylduna í mörgum fjárfestingum auk þess sem hann hefur gegnt ráðherraembættum, meðal annars embætti fjármálaráðherra. Ekki er einfalt að kalla slíkan mann til yfirheyrslu en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verður látið á það reyna en Al Thani er með annan fótinn í Lundúnum.

Nokkrir hafa fengið stöðu grunaðs manns við rannsókn málsins. Þá hafa verið gerðar 14 húsleitir, þar af tvær í gær hjá lögfræðiskrifstofunni Logos og Símanum sem hýsir rafræn gögn Logos.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×