Viðskipti erlent

Kröfuhafar í þrotabú Sterling fá ekkert

Kröfuhafar í þrotabú Sterling flugfélagsins í Danmörku fá ekkert upp í kröfur sínar. Á vefsíðunni business.dk segir að þeir smáaurar sem fundust á kistubotni félagsins fari í að greiða upp í kröfur frá ábyrgðasjóði launa í Danmörku.

Alls gerðu 9.590 aðilar kröfur í þrotabúið og skýrist fjöldinn af því að margir sem keypt höfðu flugmiða hjá Sterling skömmu fyrir þrotið vildu fá þá endurgreidda af þrotabúinu.

Tina Meilvang hjá lögmannastofunni Plesner segir í samtali við Ritzau að launagreiðslur séu forgangskröfur umfram allar aðrar í þrotabúið. Og það sem eftir var í félaginu nægði ekki til að greiða launin.

Samtals námu kröfurnar í þrotabúið 1,1 milljarði danskra kr. eða tæplega 22 milljörðum kr. Daginn sem Sterling varð gjaldþrota, sama dag og greiða átti starfsfólki laun, voru aðeins um 40 milljónir danskra kr. til inn á reikningum félagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×