Innlent

Meindýraeyðirinn á Húsavík: Ekki rétt að skjóta sendiboðann

Kötturinn Carras.
Kötturinn Carras.
Ómar Örn Jónsson, meindýraeyðir, segir að margt megi læra af máli kattarins Carras sem hann skaut á færi á þriðjudagskvöldið á Húsavík. Ómar Örn segir að víða sé pottur brotinn þegar kemur að réttindum gæludýraeigenda, dýranna sjálfra og þeirra sem þurfa að umbera ókunnug dýr á einkalóð eða heimili.

„Auðvitað á að skoða þetta mál í heild og rétt skal vera rétt. Ég tel þó að byrjað sé á vitlausum enda með því að byrja á að skjóta sendiboðann," segir Ómar Örn í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum vegna málsins.

Kötturinn Carras var skotinn af færi vegna þess að nú stendur yfir átak þar sem reynt er að losa Húsavík, sem tilheyrir Norðurþingi, við lausagöngu katta og hunda. Málið hefur vakið hörð viðbrögð og hefur formaður Dýraverndarsambands Íslands gagnrýnt vinnubrögðin harðlega.

„Það má alveg deila um það hversu ógeðfelldar þessar framkvæmdir eru og hvort þessi reglugerð á rétt á sér eður ei, en mitt starf felst einungis í því að framfylgja því sem Norðurþing í þessu tilfelli ræður mig til að gera," segir meindýraeyðirinn.

Ómar Örn segir að eftir að reglugerð um hunda- og kattahald í bæjarfélaginu tók gildi hafi hann tekið í sína vörslu á bilinu 30 til 40 ómerkta ketti og sumir hafi auk þess ekki verið með ól og bjöllu. „Allir hafa þeir komist í hendur eigenda sinna aftur. Ég vil hvetja kattareigendur í Norðurþingi til að skrá gæludýrin sín sér og þeim til heilla," segir Ómar Örn að lokum.




Tengdar fréttir

Kattadrápið: Húsavík biðst afsökunar

„Þetta var of langt gengið," segir Tryggvi Jóhannsson, framkvæmda- og þjónustufulltrúi Húsavíkurbæjar, um kattardrápið á Húsavík. Hann segir að þetta sé eina tilvikið þar sem húsköttur er skotinn þar í bæ. Kötturinn Carras var skotinn af færi á þriðjudagskvöldinu af meindýraeyði á Húsavík. Ástæðan var sú að nú stendur yfir átak þar sem reynt er að losa bæinn við lausagöngu katta.

Skaut köttinn Carras með haglabyssu á Húsavík

Meindýraeyðir á Húsavík skaut köttinn Carras innabæjar á þriðjudagskvöldinu en eigandinn, Huld Hafliðadóttir, er afar ósátt við aðfarirnar. Samkvæmt reglugerð sem bærinn hefur sett þá er lausaganga katta bönnuð í bænum.

Dýraverndunarsinnar gagnrýna kattardráp á Húsavík

„Það er fráleitt að gera þetta svona," segir ómar Dýrmundsson, formaður Dýraverndarsambands Íslands varðandi meindýraeyðinn sem skaut köttinn Carras á Húsavík síðastliðinn þirðjudag. Sjálfur segir Ómar hann gruni að það vanti dálítið upp á verklagsreglur sveitafélaga sem og lögreglu varðandi meðhöndlun dýra sem eru annaðhvort dauð eða handsömuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×