Innlent

Ástþór: Egill Helgason vanhæfur til að starfa á RÚV

Þáttastjórnandinn og stjórnmálaskýrandinn Egill Helgason er vanhæfur til að starfa á Ríkissjónvarpinu, að mati Ástþórs Magnússonar. Egill var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar sagðist Egill hafa greitt Borgarahreyfingunni atkvæði sitt í kosningunum í vor.

Ástþór segir í bréfi til Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, þetta vera skýringuna fyrir því hvers vegna Lýðræðishreyfingin hafi verið „útilokuð frá þættinum Silfur Egils á RÚV í aðdraganda kosninganna á meðan 8 fulltrúar Borgarahreyfingarinnar fengu ítrekað aðgang að þættinum."

Ástþór segir ljóst að Egill hafi misnotað aðstöðu sína í þágu Borgarahreyfingarinnar í aðdraganda kosninganna. Hann sé því vanhæfur til að starfa á ríkisfjölmiðlinum. Ástþór vill að þáttur Egils verði tekinn af dagskrá Ríkissjónvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×