Innlent

Engar sýni­legar breytingar á hraunflæði eða krafti

Samúel Karl Ólason skrifar
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu.
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu. Vísir/Vilhelm

Eldgosið í Sundhnúkagígsröðinni sýnir þess engin merki að hafa minnkað. Samkvæmt Veðurstofunni hafa engar sýnilegar breytingar orðið á hraunflæði eða krafti í nótt.

Þá hefur gosmengun mælst í styrk sem er óhollur viðkvæmum í Grindavík og á lofgæðamælum suður af gosstöðvunum. Búast má við svipuðum aðstæðum í dag og á næstunni og er fólk beðið um að forðast áreynslu utandyra og bent á að börn eigi ekki að vera úti.

Hraun rennur enn með varnargörðum umhverfis Svartsengi og Bláa lónið og hefur hraungarðurinn náð hæð varnargarðanna á sumum stöðum. Unnið er að því að hækka varnargarðana og er búið að undirbúa hraunkælingar, reynist það nauðsynlegt.

Í yfirlýsingu frá HS Veitum í gærkvöldi segir að eldgosið hafi enn sem komið er engin áhrif Njarðvíkuræðina, heitavatnslögnina, og hefur eldgosið ekki haft áhrif á afhendingu á heitu vatni eða köldu og rafmagni. Vonast er til að svo haldi áfram.

Íbúum á Suðurnesjum er þó bent á að vera undirbúin fyrir að svo geti farið að heita vatnið fari af. Notendur eru hvattir til að fara sparlega með heita vatnið og gæta þess að halda varma inn í húsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×