Viðskipti innlent

Dularfullur sjóður

Stærsti erlendi kröfuhafinn í gamla Glitni, sem á 95 prósent í Íslandsbanka, virðist hvorki vera með starfsfólk né síma, þótt finna megi heimilisfang í Dyflinni. Þetta er írskur sjóður sem stofnaður var á árinu og gerir hann 150 milljarða króna kröfur í þrotabú bankans. Skilanefnd og slitastjórn vita fátt.

Stærsti erlendi kröfuhafi Glitnis er írski sjóðurinn Burlington Loan Management með 150 milljarða kröfur. Kröfur sjóðsins eru settar fram í tuttugu liðum og eru til komnar vegna skuldabréfa.

Um miðjan október náðist samkomulag um að Glitnir, fyrir hönd kröfuhafa, eignaðist 95% hlutafjár í Íslandsbanka.

Írska félagið er því óbeint stærsti einstaki eigandi Íslandsbanka.

Hvorki skilanefnd Glitnis né slitastjórn bankans þekkja til sjóðsins.

Fréttastofa eyddi deginum í að grafa upp upplýsingar um sjóðinn. Það reyndist vægast sagt erfitt. Það sem þó fékkst upp úr krafsinu er að félagið var stofnað í apríl á þessu ári. Því er ekki um að ræða lánveitanda Glitnis, enda féll bankinn í október í fyrra.

Ekkert símanúmer fannst á félagið en fréttastofa fann heimilisfang í Dublin og hafði samband við fyrirtæki á hæðinni fyrir ofan og neðan félagið. Enginn kannaðist við Burlington Loan Management. Í yfirlýsingu um skuldabréfaútgáfu írska sjóðsins sem birtist á netinu í lok nóvember síðastliðnum var vísað í írsku lögfræðistofuna Matheson Ormsby Prentice fyrir frekari upplýsingar. Fréttastofa náði tali af lögfræðingi stofunnar í dag. Vegna trúnaðarsamnings við írska sjóðinn gat hann ekki gefið neitt upp. Ýmislegt bendir því til þess að um vogunarsjóð sé að ræða, sem hefur keypt skuldabréf í Glitni á svokölluðum eftirmarkaði, sem fór af stað í kjölfar bankahrunsins.




Tengdar fréttir

Landsbankinn með hæstu kröfurnar í Glitni

Landsbankinn gerir hæstu kröfurnar í Glitni af innlendum aðilum eða samtals tæplega 140 milljarða kr. Hinsvegar á Glitnir í Lúixemborg stærstu einstöku kröfuna en hún hljóðar upp á 126,4 milljarða kr.

Glitnir og Bjarni Ármannsson semja um endurgreiðslur

Glitnir banki og Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, hafa gert samkomulag um endurgreiðslu yfirverðs í hlutabréfaviðskiptum hlutafélaga í eigu Bjarna við stjórn Glitnis banka við starfslok hans sem voru í apríl 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×