Hvíti hákarlinn Greg Norman segir að breytingarnar sem búið sé að gera á Augusta-vellinum hafi komið honum algjörlega í opna skjöldu. Norman tekur þátt á Masters í fyrsta skipti síðan 2002.
„Það er búið að bæta 420 metrum við völlinn og ég var í losti þegar ég sá þessar breytingar. Þetta eru hreint út sagt lygilegar breytingar og það strax frá fyrstu holu. Ef veðrið helst svona á völlurinn eftir að henta þeim vel sem slá lengra," sagði Norman sem tryggði sér þáttökurétt með því að lenda í þriðja sæti á US Open í fyrra.
„Ég var sérstaklega hissa með breytingarnar sem voru gerðar á sumum af bestu holunum. Ég skil að menn geri breytingar á par fimm holum en að breyta sjöundu holunni eins og þeir gerðu skil ég ekki.
Ég elskaði áskoranirnar sem voru á stuttu holunum í gamla daga. Þá þurfti að taka áhættur og annað hvort beit holan mann í rassinn eða maður uppskar ríkulega," sagði Norman sem ætlar að njóta sín á Augusta í ár enda ekki verið þar í sjö ár.