Íslenski boltinn

Rakel: Hundsvekkt að við tókum ekki þrjú stig

Ómar Þorgeirsson skrifar
Rakel Logadóttir í leik gegn Breiðabliki.
Rakel Logadóttir í leik gegn Breiðabliki.

Rakel Logadóttir átti frábæran leik fyrir Val í kvöld og skoraði seinna mark Hlíðarendaliðsins. Hún var þó ekki nógu sátt með að fá bara eitt stig út úr leiknum.

„Ég er bara hundsvekkt að við tókum ekki þrjú stig. Mér fannst við vera betri aðilinn og ef við hefðum bara klárað okkar færi þá hefðum við auðvitað ekki lent í þessu jafntefli. Ég hrósa Stjörnustúlkunum þó fyrir það að þær eru mjög skipulagðar í vörninni og hafa bætt sig mjög mikið," segir Rakel.

Rakel var eins og aðrir Valsmenn ekki sátt með vítaspyrnudóminn í lok leiksins og vissi ekki hvað var verið að dæma á.

„Ég hélt að dómarinn væri að dæma á hendi á sóknarmann Stjörnunnar og skil ekkert hvað gerðist. Það er ekkert hægt að segja við þessu núna en vonandi verður bara vandað til við dómgæsluna það sem eftir er sumars," segir Rakel.

Rakel segir deildina núna vera mjög jafna og skemmtilegri en í langan tíma.

„Það er önnur umferð eftir og það á mikið eftir að gerast held ég. Liðin eiga eftir að taka stig hvort af öðru. Deildin er bara mjög jöfn og skemmtileg og ég bíð alltaf spennt eftir úrslitum úr öðrum leikjum. Það hefur ekki verið þannig í langan tíma," segir Rakel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×