Enski boltinn

Hver er þessi Federico Macheda?

AFP

Framherjinn Federico Macheda sló í gegn þegar hann tryggði Manchester United 3-2 sigur á Aston Villa með marki í uppbótartíma. En hver er þessi 17 ára gamli piltur?

Macheda gekk í raðir Manchester United í september árið 2007 og skrifaði undir atvinnumannasamning um það bil ári síðar. Hann er fæddur og uppalinn í Róm og lék með unglingaliði Lazio.

Félagar hans í United-liðinu kalla hann "Kiko" og hefur honum verið lýst sem einhverju mesta efni sinnar kynslóðar á Ítalíu.

Fyrst um sinn var Macheda í U-18 ára liði United, en Ole Gunnar Solskjær var fljótur að kippa honum inn í varaliðið þegar hann kom auga á hæfileika piltsins, sem var markahæsti leikmaður U-18 ára liðsins á sínu fyrsta ári með 12 mörk í 21 leik.

Hann var valinn í Evrópuhóp Manchester United og fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í deildinni í dag.

Macheda þykir sterkur á boltann, hafa næmt auga fyrir staðsetningum og er góður að klára færi líkt og hann sýndi með eftirminnilegum hætti á Old Trafford í dag.

"Þetta var frábær dagur fyrir mig, því mig hafði dreymt um að skora í mínum fyrsta leik fyrir Manchester United. Ég naut þess í botn," sagði hinn ungi Macheda eftir leikinn í dag.

Hann var spurður hvað Alex Ferguson hefði sagt við hann áður en hann sendi hann inn á völlinn. "Spilaðu þinn leik. Hafðu þetta einfalt. Spilaðu bara," sagði Rómverjinn ungi að stjórinn hefði sagt.

Ferguson segir að það sé mikilvægt að Mancheda haldi sig á jörðinni þrátt fyrir hetjuskapinn í dag.

"Ég sagði honum að hann hefði staðið sig vel. Hann á eftir að fá gríðarlega athygli og umfjöllun næstu daga og því er mikilvægt að hann haldi sig á jörðinni og nái að höndla það," sagði Ferguson.

Varnarjaxlinn Gary Neville var líka ánægður með drenginn unga í dag. "Ég er honum fyrst og fremst þakklátur. Vörnin hjá okkur hrundi dálítið í síðari hálfleik en við gáfumst aldrei upp. Hæfileikarnir sem Mancheda sýndi í lokin voru ótrúlegir. Við höfum ekki séð mikið af þessum pilti til þessa, en hann er góður slúttari og maður vill alltaf að menn eins og hann fái boltann í teignum," sagði Neville.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×