Enski boltinn

Mourinho vill snúa aftur til Englands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Portúgalinn Jose Mourinho hefur greint frá því að hann sjái sjálfan sig í framtíðinni stýra ensku liði á nýjan leik. Mourinho varð enskur meistari með Chelsea tvö ár í röð.

Hann er nú á sínu öðru ári sem þjálfari Inter en hann á eitt og hálft ár eftir af núverandi samningi

„Auðvitað er óraunverulegt að ætlast til þess að menn séu jafn lengi hjá liðum og Sir Alex Ferguson. Ég er tilbúinn fyrir næsta skref í mínum ferli samt," sagði Mourinho við The Times.

„Þegar ég var hjá Porto var takmarkið að vinna mér rétt til þess að komast að hjá erlendu liði. Hjá Chelsea var stefnan að skrifa sögu félagsins en ég vissi að Chelsea vantaði líka stöðugleika," sagði Mourinho.

„Ég var fullkomlega meðvitaður um allt hjá Chelsea. Ég skildi persónuleika Abramovich og menninguna í kringum hann. Ég vissi vel að ég væri ekki að fara að vinna þar í tíu ár. Mitt hlutverk var að gefa manninum það sem hann vildi - titla. Samt vissi ég vel að minn tími myndi enda þar sem margt var að gerast allt í kring," bætti Portúgalinn við.

„Svo fór ég til Ítalíu sem er heimaland taktíska boltans og varnarleiksins. Takmarkið þar var ekki bara að vinna í þriðja landinu heldur að troða ofan í þá sem segja að erlendir þjálfarar nái ekki árangri í landinu.

Ég elska Inter og væri til í að byggja til framtíðar þar. Ég er reyndar að því þar sem ég er ekki sjálfselskur þjálfari. Ítalía er samt ekki rétta landið fyrir það verkefni. England er rétta landið fyrir það og minn framtíðarfótbolti er á Englandi."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×