Innlent

Ábatasöm útrás skurðlæknis

Ábatasöm útrás íslensks skurðlæknis og sérfræðings í magahjáveituaðgerðum skilar Norðurlandi eystra milljónatugum í skatttekjur þessu ári. Fjögur þúsund sjúklingar leggjast undir hnífinn hjá fyrirtækinu í ár.

Það vekur athygli í álagningarskrá Norðurlands eystra að þar er í tíunda sæti eignarhaldsfélagið Hjörtur GG, staðsett á Akureyri og borgar til samfélagsins tæpar fjörutíu milljónir króna á þessu ári. Félagið velti röskum 250 milljónum króna á síðasta ári. Þegar fréttastofa fór að grennslast fyrir kom í ljós að eigandi félagsins er Hjörtur Georg Gíslason fyrrverandi meltingarskurðlæknir á St. Jósefsspítala. Félagið er hins vegar stofnað um fyrirtæki hans sem sér um flóknar og stórar speglunarskurðaðgerðir, einkum á offitusjúklingum, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og hefur tíu skurðlækna á sínum snærum.

Fréttastofa náði tali af Hirti nú síðdegis, þar sem hann er staddur í stuttu stoppi á Íslandi. En af hverju greiðir hann skatta af þessari erlendu starfsemi til Norðurlands eystra? „Ég er fæddur Akureyringur og er skráður með lögheimili þar. Ég bý reyndar svona í hálfgerði ferðastöku en ég er að vinna í Svíþjóð, Noregi og Danmörku," segir Hjörtur Georg.

Aðspurður segir hann mikla eftirspurn vera eftir slíkum aðgerðum. „Eins og staðan er í dag er eftirspurnin miklu meiri en framboðið eða þar að segja þeir sem geta annast og gert þessar aðgerðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×