Innlent

Leikskólastarfsmaður sló fimm ára gamlan dreng

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Borgaryfirvöld virðast ekki geta rekið leikskólastarfsmann úr starfi þrátt fyrir að hann hafi ítrekað slegið fimm ára gamlan dreng. Móðir drengsins er reið og segir að drengurinn þori ekki lengur að mæta í skólann.

Leikskólastarfsmaðurinn, sem er ófaglærður, hefur að minnsta kosti þrisvar sinnum löðrungað drenginn sem er einungis fimm ára gamall.

Starfsmaðurinn hefur unnið á leikskólanum, sem er á höfuðborgarsvæðinu, frá því í haust.

Það var leikskólastjórinn sem gerði foreldrum drengsins viðvart í lok janúarmánaðar eftir að það sást til starfsmannsins slá drenginn.

"Það var 21. janúar að leikskólastjórinn hringir í mig og tjáir mér það að drengurinn hafi verið sleginn utanundir þrisvar sinnum á tveggja til þriggja vikna tímabili."

Starfsmanninum hefur þó ekki verið sagt upp störfum.

"Ég hef haft samband við barnavernd. Það er verið að brjóta barnaverndarlög. En þeir báðu mig að hafa samband við leikskólasvið. Það stangast öll lög á þarna. Réttindi starfsmanna eru 100% en barnið hefur engin réttindi."

Ólöf hefur einnig haft samband við borgarstjóra vegna málsins en fær alltaf sömu svör: Starfsmanninn er ekki hægt að reka. Drengurinn hefur þó verið fluttur úr umsjá starfsmannsins.

Starfsmaðurinn hefur viðurkennt að hafa lamið drenginn einu sinni en ekki oftar. Ólöf segir að starfsfólk leikskólans hafi sýnt henni mikinn skilning.

Henni hefur verið boðið að flytja drenginn á annan leikskóla en aðstæður heimafyrir koma í veg fyrir að hún geti þegið það boð.

Hún segir að drengurinn sé hræddur og sýni mikið óöryggi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×