Tiger Woods vann sitt fyrsta golfmót eftir endurkomuna úr hnémeiðslum með eftirminnilegum hætti í gær. Tiger tryggði sér sigurinn á Arnold Palmer Invitational mótinu á Bay Hill með því að setja niður lokapúttið og fá fugl á 18. holunni.
Tiger var fimm höggum á eftir Sean O'Hair fyrir lokadaginn en Tiger spilaði síðasta hringinn á 67 höggum og vann O'Hair með einu höggi. Þetta var í 19. sinn sem hann tryggir sér sigur á móti þar sem hann kemur til baka á lokadeginum en Tiger hefur aldrei unnið mót þar sem hann hefur verið meira en 5 höggum á eftir.
Tiger Wodds og Sean O'Hair voru jafnir fyrir lokaholuna en Tiger náði fuglinum þegar hann setti niður tæplega fjögurra metra pútt.Þetta var annað árið í röð og í þriðja sinn á ferlinum þar sem Tiger tryggði sér sigur á þessum móti með glæsilegu lokapútti. Hann vann mótið þannig í fyrra sem og árið 2001 þegar hann hafði betur gegn Phil Mickelson.
Tiger lék alls á 275 höggum eða fimm höggum undir pari. Þetta var 66. sigur hans á PGA-mótaröðinni og fyrir hann fékk hann 1,08 milljónir dollara eða um 125 milljónir íslenskra króna.