Fótbolti

Leikmaður City rekinn úr landsliðinu fyrir að mæta of seint

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany tjáir sig við dómara í derby-slagnum á móti Manchester United.
Vincent Kompany tjáir sig við dómara í derby-slagnum á móti Manchester United. Mynd/AFP
Vincent Kompany, varnarmaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, var ekki með belgíska landsliðinu á móti Katar eftir að hafa mætt tvisvar of seint. Í fyrra skiptið kom hann fimm mínútum of seint á liðsfund og í seinna skiptið skilaði hann sér of seint eftir að hafa farið í jarðaför ömmu sinnar í Brussel.

Kompany var fyrst refsað fyrir að mæta of seint á umræddan liðsfund sem var fyrir leik á móti Ungverjalandi á laugardaginn. Dick Advocaat, þjálfari Belga, setti hann á bekkinn í þeim leik en Belgía vann öruggan 3-0 sigur. Liðið saknaði greinilega ekki Kompany mikið því liðið vann þessa tvo leiki án hans með markatölunni 5-0.

Kompany tjáði sig um fyrra brotið og var ekki alltof sáttur með það að þurfa að byrja á bekknum. „Leikmenn voru alltaf vaktir með símhringingu úr afgreiðslunni en það hefur greinilega breyst með nýjum þjálfara. Vandamálið var bara að ég vissi það ekki en ég skil þó alveg óánægju þjálfarans," sagði Kompany.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×