Viðskipti innlent

Búist við að fleiri fái stöðu grunaðra

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Úttekt á kaupum Al Thani á 5% hlut í Kaupþingi er að finna í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Price Waterhouse Coopers um starfsemi bankans. Fjármálaeftirlitið hafði málið á sínu borði í tæpt hálft ár. Búist er við að fleiri heldur en færri muni fá stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks saksóknara á kaupunum.

Við fall Kaupþings var endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers fengið til að vinna skýrslu um starfsemi bankans. Skýrslan kom á borð Fjármálaeftirlitsins í byrjun nóvember á síðasta ári en í henni er að finna upplýsingar varðandi kaup Sjeiksins á 5 % hlut í bankanum.

Fjármálaeftirlitið hafði málið til skoðunar í tæpt hálft ár og aflaði frekari gagna um kaupin. Þann 13. mars síðastliðinn sendi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara sem nú hefur hafið rannsókn á málinu. Fram hefur komið að nokkrir hafi fengið stöðu grunaðra en ekki hefur fengist uppgefið hversu margir. Sérstakur saksóknari mun ekki gefa fólki stöðu grunaðra fyrr en við yfirheyrslu.

Búist er við að fleiri en færri muni fá stöðu grunaðra til að girða fyrir ákærur á síðari stigum. Ólafur Þór Hauksson sagði í samtali við fréttastofu að frekar sé gefin staða sakbornings fremur en að kalla menn inn sem vitni. Er það gert til að koma í veg fyrir að yfirheyra þurfi aftur síðar og þá með breytta réttarstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×