Innlent

Guðjón Arnar: Flokkurinn er ekki í góðu standi

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson.
,,Flokkurinn er náttúrulega ekki í góðu standi þegar koma svona uppákomur. Alls ekki. Þetta kemur manni algjörlega í opna skjöldu," segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, aðspurður um brotthvarf Ásgerðar Jónu Flosadóttur og tveggja þingmanna úr flokknum.

Níu dagar eru síðan að Ásgerður var kjörin varaformaður á landsþingi í Stykkishólmi en undanfarin ár hefur hún verið formaður Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum. Í seinustu viku var tilkynnt að Ásgerður myndi leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hún segir að Guðjón vilji ekki ráðast í nauðsynlegar breytingar á flokknum.

Guðjón segir að miðstjórn Frjálslynda flokksins komi fljótlega saman til að skipa nýjan varaformann. Aðspurður telur hann allt eins líklegt að Kolbrún Stefánsdóttir, fyrrum ritari flokksins, taki við en hún hlaut næstflest atkvæði í varaformannskjörinu á landsþinginu.

,,Það kemur alltaf maður í manns stað. Það er enginn svo ómissandi að það komi ekki maður í manns stað," segir Guðjón.

Guðjón segir að Frjálslyndi flokkurinn hafi komið illa út úr skoðanakönnunum að undanförnu. Guðjón á þó von á því að hann nái kjöri í kosningunum 25. apríl. ,,Ég hef hingað til haft mikinn stuðning í Norðvesturkjördæmi."


Tengdar fréttir

Enn fækkar í Frjálslynda flokknum

Ásgerður Jóna Flosadóttir sem nýverið var kjörin varaformaður Frjálslynda flokksins hefur ákveðið að segja sig úr flokknum. Hún segir að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, vilji ekki gera nauðsynlegar breytingar á flokknum. Ásgerður var kjörin varaformaður á landsþingi sem haldið var fyrir níu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×